Gísli Freyr Valdórsson (Kristinn Steinn Traustason)
Gísli Freyr Valdórsson formaður handknattleiksdeildar Fram staðfesti í samtali við Handkastið fyrir helgi að brot Ívars Loga Styrmissonar gegn Aftureldingu í 5.umferð Olís-deildar karla væri komið á borð aganefndar. Málið var skotið inn á borð aganefndar af málskotsnefnd miðvikudaginn 8.október sex dögum eftir að leik Aftureldingar og Fram lauk. ,,HSÍ hefur óskað eftir greinargerð frá Fram vegna málsins og við munum að sjálfsögðu verða við því,” sagði Gísli Freyr Valdórsson í samtali við Handkastið aðspurður út í málið. Samkvæmt reglum HSÍ hefur málskotsnefnd fimm daga til að vísa máli til aganefndar. Það er því nokkuð skýrt að mati Fram að málskotsnefndin hafi verið of seint að vísa málinu til aganefndar. ,,Reglur HSÍ um þetta eru nokkuð skýrar þar sem gefinn er fimm daga frestur til að skjóta málinu til aganefndar. Sá frestur var liðinn þegar málskotsnefnd kom saman til fundar,” sagði Gísli Freyr og bætir við að það sé í sjálfu sér eðlilegt að hægt sé að vísa málum til aganefndar eftir á. ,,Þá sérstaklega atvikum sem menn telja að dómurum hafi yfirsést, og ég hugsa að flestir séu sáttir við að það sé ekki lengur í höndum eins manns. Starfsreglur málskotsnefndar þurfa þó að vera skýrar og það á greinilega eftir að móta þær almennilega, sem er kannski eðlilegt í ljósi þess að nefndin hefur nýlega tekið til starfa. En á meðan menn móta þessa reglur eða verklag er ekki hægt að gefa afslátt af þeim reglum sem þegar eru í gildi, t.d. þeirri augljósu reglu sem gildir um það hvenær hægt er að vísa málum til aganefndar,” sagði Gísli Freyr í samtali við Handkastið. Það má búast við því að aganefnd HSÍ taki málið fyrir á fundi sínum á morgun. Hvort hún vísi málinu hinsvegar frá vegna 1.gr. reglna HSÍ um agamál verður síðan að koma í ljós. Í 1. gr. reglna um agamál hjá HSÍ segir: ,,Aganefnd hefur heimild til að úrskurða um alvarleg agabrot sem dómarar sáu ekki í leik og brugðust því ekki við. Í slíkum tilfellum hefur máli verið skotið til nefndarinnar af málskotsnefnd HSÍ vegna meints alvarlegs agabrots og í kjölfar þess óskar nefndin eftir athugasemdum viðkomandi aðila ásamt öðrum gögnum ef við á. Málskoti vegna alvarlegs agabrots skal beina til aganefndar innan 5 daga frá því að meint alvarlegt agabrot bar við og skulu almennir frídagar ekki taldir með. Aganefnd ber að úrskurða í máli frá málskotsnefnd svo fljótt sem verða má."

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.