Daníel Þór Ingason - Sandra Erlingsdóttir (ÍBV handbolti)
Daníel Þór Ingason leikmaður ÍBV var ekki með liðinu í tapi gegn Haukum í lokaleik 6.umferðar Olís-deildarinnar í gær vegna óhapps sem hann lenti í, á laugardaginn. Handkastið greindi frá því fyrst allra miðla í gærkvöldi að Daníel Þór Ingason hafi slasað sig við upptökur á samfélagsmiðlaefni sem HSÍ er að útbúa. Hægt er að lesa um málið hér. Rætt var um málið í nýjasta þætti Handkastsins. Handkastið heyrði í Daníeli í gærkvöldi og bað hann um að fara aðeins yfir atvikið. ,,Það var planaður media dagur með liðinu fyrir æfingu á laugardaginn. Þar var útskýrt fyrir okkur að það ætti að taka upp nokkur myndbönd fyrir samfélagsmiðlanna. Síðan kemur að þessu atriði þar sem okkur er sýnt myndband af öðrum vera hoppa yfir einhvern einn einstakling,” sagði Daníel en hægt er að sjá um hvað ræðir hér að neðan. ,,Við hugsuðum bara með okkur, jájá þetta er ekkert mál. Síðan frétti ég það eftir á, að sá sem sér um þetta tekur þann aðila sem á að beygja sig, til hliðar og segir honum að færa sig undan einhverntímann. Ég veit ekkert hvort það hafi verið planað að gera það þegar ég kæmi eða eitthvað svoleiðis." ,,Síðan fer þetta af stað og við byrjum að hoppa yfir einstaklinginn og svo kemur að mér og einstaklingurinn beygir sig undan og ég svíf yfir hann og skelli í gólfið." Daníel lýsir því þannig að í fyrstu hafi allir farið að hlæja yfir atvikinu en síðan hafi hann áttað sig á alvarleika stöðunnar. ,,Ég fann um leið og ég stóð upp að það var ekki allt eins og það átti að vera. Þá vissi ég að það væri eitthvað í gangi. Í kjölfarið tek ég síðan ekkert meira þátt í þessu og síðan er æfingin hjá okkur í kjölfarið." Daníel Þór segist ekki vita hver hafi átt þá hugmynd að endurgera þetta myndskeið sem er þekkt á TikTok um þessar mundir. ,,Ég er ekkert að sakast við gæjann sem beygir sig frá mér, þetta var það sem honum var sagt að gera. Það er meira vanhugsað að láta okkur í þessar aðstæður að láta okkur hoppa eitthvað og þú veist að einhver gæti slasað sig," sagði Daníel sem bendir á að það sé hægt að finna eitthvað allt annað dæmi til að taka þátt í sem er skemmtilegt, frekar en að láta einhvern detta í jörðina. Í kjölfarið fór Daníel Þór í myndatöku á hægri öxl eftir ráðleggingar frá sjúkraþjálfara ÍBV. ,,Það hefur ekkert komið neitt nákvæmlega útúr því. Ég veit ekki nákvæmlega hvað ég verð lengi frá. Ég er betri í dag heldur en í gær og vonandi heldur það svoleiðis áfram. Vonandi verð ég klár í leikinn á laugardaginn en ég veit ekkert um það," sagði Daníel Þór Ingason leikmaður ÍBV að lokum. ÍBV mætir Aftureldingu í Mosfellsbænum næstkomandi laugardag klukkan 15:00 í 7.umferð Olís-deildar karla. Hress styður umfjöllun Handkastsins um Þjóðaríþróttina - Í tilefni þess fá allir hlustendur og lesendur Handkastsins 2 fyrir 1 af öllum boozt á Hressbarnum út október. Hress er staðsett á Dalshrauni 11 í Hafnarfirði. Verði ykkur að góðu.

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.