Simon Pytlick - SG Flensburg-Handewitt - THW Kiel (Michael Hundt / dpa Picture-Alliance via AFP)
Mikið hefur verið rætt og ritað um danska landsliðsmanninn, Simon Pytlick síðustu daga og vikur og síðustu daga hefur verið fullyrt að Simon Pytlick gangi í raðir Fuchse Berlín frá Flensburg eigi síðar en sumarið 2027 og jafnvel fyrr. Simon Pytlick er nýbúinn að gera samning við Flensburg til ársins 2030 en eftir að Nicolej Krickau tók við liði Fuchse Berlín fóru hjólin að snúast og orðrómur varð uppi um að Pytlick yrði hans helsta skotmark á leikmannamarkaðnum. Í kjölfar endurtekinna orðróma og yfirlýsinga taldi SG Flensburg-Handewitt sig knúna til að tjá sig um orðróminn í kringum Simon Pytlick. Forráðamenn Flensburg staðfesta að samningur Simon Pytlick innihaldi uppsagnarákvæði. Hins vegar standa þeir gegn þeim fullyrðingum um að Simon Pytlick gæti yfirgefið félagið næsta sumar. ,,Við munum ekki leysa Simon frá störfum sumarið 2026 og það er heldur ekkert uppsagnarákvæði fyrir sumarið 2026,“ sagði Ljubomir Vranjes, íþróttastjóri SG Flensburg-Handewitt. Flensburg tjáir sig ekki frekar um innihald samningsins. ,,Við tökum ekki þátt í sögusögnum og tjáum okkur ekki um samningsskilmála svo lengi sem ekkert er að frétta,“ sagði Holger Glandorf, framkvæmdastjóri Flensburg, að lokum.
Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.