Einar Rafn Eiðsson (Egill Bjarni Friðjónsson)
KA fær Val í heimsókn í 7.umferð Olís-deildar karla í kvöld klukkan 18:30. Bæði lið eru með átta stig í 3. og 4.sæti deildarinnar og mikil eftirvænting er fyrir þessum leik. KA hefur unnið þrjá síðustu leiki sína í deildinni og nú síðast gegn Íslands- og bikarmeisturum Fram í Úlfarsárdalnum. KA hóf tímabilið með marga leikmenn á meiðslalistanum og stuttu fyrir tímabilið þurfti liðið að hætta við fyrirhugaðan æfingaleik gegn Gróttu vegna manneklu. Það eru bjartari tímar framundan hjá liðinu hvað varðar meiðslalistann því bæði Arnór Ísak Haddsson og Einar Rafn Eiðsson eru byrjaðir að æfa með liðinu. Andri Snær Stefánsson þjálfari KA sagði í samtali við Handkastið að það væri samt sem áður ennþá óvissa hvenær þeir verði klárir. Það væri hinsvegar jákvæð teikn á lofti. ,,Þeir eiga enn smá í land með að verða leikfærir," sagði Andri Snær sem sagði að það væri lengra í að Patrekur Stefánsson komi til baka úr sínum meiðslum sem hann hlaut en hann er að glíma við beinmar á ökkla. Leikir kvöldsins:
18:30 KA - Valur
19:00 Þór - HK
19:30 Haukar - Stjarnan

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.