Dagur Árni Heimisson (Sævar Jónasson)
Í kvöld fer fram leikur KA og Vals á Akureyri en bæði liðin eru með 8 stig í Olís deild karla eins og stendur. Dagur Árni Heimisson leikmaður Vals er að mæta á sinn gamla heimavöll en hann gekk einmitt í raðir Vals í sumar frá KA. Handkastið heyrði í Degi og spurði hvort það væri ekki mikil tilhlökkun að spila gegn sínum gömlu félögum? ,,Jú ég er ótrúlega spenntur að fara heim að spila, get ekki beðið". Líkt og fyrr sagði gekk Dagur Árni til liðs við Val í sumar og er mjög ánægður með fyrstu vikurnar hjá nýju félagi. ,,Kúlturinn í félaginu er góður, metnaðarfullt umhverfi og hópurinn er mjög flottur. Ég vissi að það myndi taka smá tíma að venjast nýju umhverfi en ég finn að þetta er farið að smella." Valsmenn sitja í 3.sæti deildinnar með 8 stig en eru dottnir út úr bikarkeppninni eftir tap gegn Haukum í vítakastkeppni og segir Dagur Árni að það hafi verið mjög svekkjandi. ,,Þetta hefur verið fín byrjun á tímabilinu fyrir utan bikarinn, við erum að slípast saman og ég tel að við munum vera sterkir á réttum tímapunkt." Hans gömlu liðsfélagar sitja í 4. sæti deildinnar með 8 stig líkt og Valur og viðurkenni Dagur Árni að þeirra góða gengi hafi komið honum smá á óvart en hann er mjög hrifinn af þjálfara þeirra ,,Andri Snær er toppmaður og kann að búa til alvöru liðsheild og stemmningu." Leikur KA og Vals hefst klukkan 18:30 í kvöld.

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.