Ísland U19 (IHF)
Elís Þór Aðalsteinsson fór á kostum í sigri ÍBV gegn Atureldingu í 7.umferð Olís-deildar karla um síðustu helgi er hann skoraði 15 mörk fyrir liðið og var gjörsamlega óstöðvandi í leiknum. Rætt var um frammistöðu Elís Þórs í nýjasta þætti Handkastsins en Elís Þór var valinn besti leikmaður 7.umferðarinnar hjá Handkastinu og var í Cell-Tech liði umferðarinnar. Elís Þór varð eftir 7.umferðina markahæsti leikmaður Olís-deildarinnar sem stendur og fór upp fyrir Bjarna Ófeig Valdimarsson leikmann KA. ,,Þetta er gríðarlegt efni. Hann hefur verið frábær í nánast allan vetur. Það var einn leikur sem hann var ólíkur sjálfum sér í bikarnum gegn Aftureldingu annars hefur hann verið frábær. Ég hef heyrt talað um þennan dreng lengi. Það er örugglega þrjú ár síðan Eyjamenn fóru að tala hann upp," sagði Stymmi klippari og hélt áfram. ,,Hann fékk eldskírnina í fyrra og þetta er það sem ég elska við Olís-deildina. Þar fá ungir leikmenn tækifæri til að skína." ÍBV fær sjóðheitt lið KA í heimsókn á laugardaginn klukkan 15:00 í 8.umferð Olís-deildar karla. Leikurinn verður sýndur í beinni í Handboltapassanum.

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.