Viktor Sigurðsson (Baldur Þorgilsson)
Framarar hafa keypt leikstjórnandann, Viktor Sigurðsson frá Val og hefur hann skrifað undir samning við Fram og mun ganga til liðs við félagið þegar í stað. Fram tilkynnir þetta á samfélagsmiðlum sínum nú rétt í þessu. Viktor sem er 24 ára vinstri skytta, hefur á liðnum árum spilað hjá Val en er uppalinn hjá ÍR. Viktor gekk í raðir Vals sumarið 2023 og var því að hefja sitt þriðja tímabil með Val. Í tilkynningunni frá Fram segir að Viktor komi úr mikilli Fram fjölskyldu en afi hans Rúnar Guðmannsson spilaði einnig handbolta með Fram, sem og faðir hans Sigurður Rúnarsson. Hjá Fram hittir Viktor fyrir bróður sinn Theodór og frænda, Rúnar Kárason. Handkastið greindi frá því fyrr í sumar að Framarar reyndu að fá Viktor til sín í sumar án árangurs. „Við erum spenntir fyrir því að fá Viktor til liðs við Fram. Við höfum mikla trú á honum sem leikmanni og að hann passar vel inn í öflugan leikmannahóp félagsins,“ segir Einar Jónsson, þjálfari meistaraflokks karla. Viktor er þriðji leikmaðurinn sem gengur í raðir Fram á stuttum tíma. Dánjal Ragnarsson gekk í raðir Fram rétt fyrir tímabilið og þá kom Þorsteinn Gauti Hjálmarsson aftur til Fram eftir stutta veru hjá Sandefjord í Noregi.
Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.