Jökull Blöndal (Egill Bjarni Friðjónsson)
Frammistaða Jökuls Blöndals leikmanns ÍR í tapi liðsins gegn Fram í 7.umferð Olís-deildar karla var til umræðu í Handboltahöllinni sem sýnd er í opinni dagskrá í Sjónvari Símans öll mánudagskvöld. Þar var farið yfir þau sjö mörk sem Jökull skoraði í leiknum en hann skrifaði nýverið undir þriggja ára samning við félagið. Hörður Magnússon þáttastjórnandi Handboltahallarinnar varpaði þeirri spurningu á Vigni Stefánsson hvort Jökull gæti ekki náð langt í handboltanum. ,,Ekki nokkur spurning. Hann minnir mig smá á Tryggva Garðar Jónsson þegar hann var upp á sitt besta sóknarlega. Stór og öflugur leikmaður sem getur spilað vörn og neglt á markið. Hann hefur verið að sýna okkur það í síðustu leikjum. Hann byrjaði tímabilið ekki í þessari stöðu hjá ÍR-ingum. Hann er eiginlega nýr leikmaður fyrir þeim,” sagði Vignir Stefánsson áður en Einar Ingi Hrafnsson tók til máls. ,,Þetta er held ég fyrsti eða annar leikurinn sem hann byrjar í skyttunni hjá ÍR. Ég held að Bjarni og ÍR-ingarnir séu farnir að reyna aðlaga liðið að Jökli meira. Undirbúningstímabilið var held ég bara ekki nægilega gott hjá ÍR. Þeir gleyma væntanlega bara Jökli. Hann var ekkert inn í spilinu til að byrja með.” ,,En til þess þarftu að setja svolitla pressu á að Baldur breyti sínum leikstíl,” sagði Einar Ingi að lokum. ÍR fer í N1-höllina í kvöld og mætir þar Val í 8.umferð Olís-deildar karla klukkan 19:00. Þrír leikir fara fram í Olís-deildinni í kvöld en stórleikur kvöldsins er leikur FH og Hauka sem hefst klukkan 19:30 og er sýndur í opinni dagskrá í Sjónvarpi Símans. Umræðuna um Jökul og ÍR má sjá hér að neðan. Hress styður umfjöllun Handkastsins um Þjóðaríþróttina - Í tilefni þess fá allir hlustendur og lesendur Handkastsins 2 fyrir 1 af öllum boozt á Hressbarnum út október. Hress er staðsett á Dalshrauni 11 í Hafnarfirði. Verði ykkur að góðu.
Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.