Bjarni Ófeigur Valdimarsson (Egill Bjarni Friðjónsson)
Mikið hefur verið rætt og ritað um ljótt brot Bjarna Ófeigs Valdimarssonar leikmanns KA í sigri liðsins gegn Val í síðustu viku. Athygli vakti að málið rataði ekki á borð aganefndar HSÍ frá málskotsnefndinni sem greinilega fannst ekkert athugunarvert við leikbrot Bjarna í atviku. Brotið og umræðuna um brotið úr síðasta þætti Handkastsins má sjá hér að neðan. Bjarni Ófeigur hefur nú skrifað athugasemd við myndskeið Handkastsins um brotið á Instagram síðu Handkastsins. Þar segist hann vera sammála umræðunni. ,,Sammála, svona brot/eftirfylgni eiga ekki að sjást í deildinni okkar. Munur á að standa fasta vörn og að fara í dirty brot sem geta leitt til óþarfa meiðsla. Við leikmenn í Olís erum lika fyrirmyndir fyrir unga krakka í hreyfingunni og svona atvik eiga ekki að vera normalíseruð af okkur. Sem betur fer erum við Oggi (Þorgils Jón Svölu Baldursson innskot.) góðir vinir og búnir að ræða saman. Höldum áfram að keppa af harðfylgi en innan ákveðna marka!" Þar sem málskotsnefnd HSÍ sá ekki ástæðu til að leggja þetta brot á borð aganefndar verður Bjarni Ófeigur mættur í næstu umferð með KA gegn ÍBV á laugardaginn næstkomandi. Bjarni hefur farið á kostum í upphafi tímabils og er næst markahæsti leikmaður deildarinnar en KA hefur komið á óvart í upphafi tímabils og er í 2.-3.sæti deildarinnar eftir sjö umferðir.
Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.