(Aðsend)
Torfi Geir Halldórsson leikmaður Fram í Olís-deild karla mætti föður sínum í 8.umferð Olís-deildar karla í gær þegar Fram heimsótti HK í Kórinn. Halldór Jóhann Sigfússon þjálfari HK er faðir Torfa Geirs. Torfi Geir og félagar hans í Fram unnu sannfærandi sigur í leiknum með ellefu mörkum 40-29. Torfi Geir tók fram handboltaskóna í sumar eftir að hafa reynt fyrir sér í knattspyrnu síðustu ár en Torfi Geir var á tíma talinn einn efnilegasti handboltamaður landsins. Hann er uppalinn hjá Fram og hóf óvænt að byrja æfa handbolta á nýjan leik í sumar. Torfi Geir hefur verið að spila varnarleik fyrir Fram í upphafi tímabils. Torfi Geir og Halldór Jóhann eru ekki einu feðgarnir í Olís-deildinni. Hjá ÍR þjálfar Bjarni Fritzson son sinn, Baldur Fritz. Sömu sögu er að segja í Kaplakrika þar sem Sigursteinn Arndal þjálfar son sinn Brynjar Narfa Arndal og í Eyjum þjálfar góðvinur Handkastsins, Erlingur Richardsson son sinn Andra Erlingsson. Svo má ekki gleyma Jóhanni Inga Guðmundssyni markmannsþjálfara Vals en sonur hans, Gísli Rúnar Jóhannsson er leikmaður Aftureldingar.

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.