Germany - Iceland (DANIEL KARMANN / dpa Picture-Alliance via AFP)
Íslenska karla landsliðið beið afhroð í æfingaleik gegn Þýskalandi í Nurnberg í kvöld er liðið tapaði 42-31 eftir að hafa verið 20-14 undir í hálfleik. Það stóð ekki steinn yfir steini í leiknum þar sem Þjóðverjar höfðu mikla yfirburði frá fyrstu mínútu leiksins. Það sást strax í upphafi leiks í hvað stemmdi. Orri Freyr Þorkelsson var markahæstur í liði Íslands með fimm mörk og Elliði Snær Viðarsson kom næstur með fjögur mörk ásamt Viggó Kristjánssyni og Gísla Þorgeiri Kristjánssyni. Markvarsla íslenska landsliðsins var nánast engin en þeir Viktor Gísli Hallgrímsson og Ágúst Elí Björgvinsson vörðu samtals fjögur skot Þjóðverja. Til að setja það í samhengi þá varði Andreas Wolff markvörður Þjóðverja jafn mörg vítaköst í leiknum. Varnarleikur íslenska liðsins var ekki að hjálpa markvörðunum mikið í leiknum og verður maður að velta fyrir sér upplegginu fyrir leik og hvert leikplanið var. Þýska liðið gat gert það sem þeim datt í hug sóknarlega og mörk Þjóðverja komu héðan og þaðan. Þetta var ein daprasta frammistaða sem liðið hefur sýnt undir stjórn Snorra Steins Guðjónssonar en þjóðirnar mætast á nýjan leik í Munchen á sunnudaginn. Hausverkur þjálfarateymisins er mikill fyrir þann leik og margt sem þarf að fara yfir til að betrum bæta leik liðsins. Allt frá markvörslu, varnarleik, hlaup til baka, upphlaup, uppstilltur sóknarleikur og ég tala nú ekki um vítaskotin en Andreas Wolff varði fjögur víti og þá fór eitt vítakast Íslands framhjá markinu. Juri Knorr var stórkostlegur í leiknum og skoraði níu mörk úr níu skotum. Þá skoraði Johannes Golla fimm mörk úr fimm skotum. Andreas Wolff varði fjórtán skot í markinu og var með 37% markvörslu. Handkastið gerir upp leikinn í hlaðvarpsþætti sínum í fyrramálið þar sem Einar Örn Jónsson og Aðalsteinn Eyjólfsson verða gestir okkar.

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.