Óánægðastur með það að hafa fengið á sig 18 mörk úr hröðum sóknum
DANIEL KARMANN / dpa Picture-Alliance via AFP)

Snorri Steinn Guðjónsson (DANIEL KARMANN / dpa Picture-Alliance via AFP)

Snorri Steinn Guðjónsson þjálfari íslenska landsliðsins er verulega óánægður með það hversu mörg mörk Þjóðverjar skoruðu úr hröðum upphlaupum í ellefu marka tapi Íslands gegn Þýskalandi í gær.

Handkastið sló á þráðinn til Þýskalands og heyrði í landsliðsþjálfaranum sem var að klára fund með landsliðsstrákunum.

Þjóðirnar mætast aftur á sunnudaginn í öðrum æfingaleik þjóðanna í Munchen. Handkastið spurði Snorra fyrst að því hverju hann er svekktastur með eftir leikinn í gær.

,,Ég er mest óánægðastur með það að hafa fengið á mig 18 mörk úr hröðum sóknum og ég er í raun verulega ósáttur með það. Þetta er hlutur sem við töluðum um fyrir leikinn og lögðum áherslu á. Það fannst mér mjög lélegt.”

,,Ég hef sagt drengjunum mína skoðun á því og við höfum farið yfir þetta á fundi. Byrjunin á báðum hálfleikjunum var ekki nægilega góð og þá sérstaklega í seinni hálfleik þá fannst mér við vera slappir,” sagði Snorri Steinn sem var ánægður með leik Íslands þegar liðið náði að stilla upp bæði í vörn og sókn.

,,Þegar við spiluðum 6 á móti 6 bæði varnar og sóknarlega fannst mér við vera fínir. Við fengum tækifæri sóknarlega sem við vildum þannig það var allt á pari fannst mér. En að fá á sig 20 mörk í báðum hálfleikjunum er ekki nægilega gott.”

Í Handkastinu í morgun voru þeir Einar Örn Jónsson og Aðalsteinn Eyjólfsson gestir og þar ræddu þeir möguleikann á því að breiddin í íslenska landsliðshópnum væri ekki nægilega mikil og því væri þetta mögulega of þægilegt fyrir marga leikmenn landsliðsins sem vita að þeir verða alltaf í lokahópi Íslands á næsta stórmóti.

Það á hinsvegar ekki við um landsliðshópinn hjá Þjóðverjum. Handkastið spurði Snorra Stein út í þær vangaveltur.

,,Ég skil alveg þær vangaveltur og það er ekkert að því að velta því fyrir sér. En það er ekki mín upplifun og æfingarnar hafa verið góðar og mikil einbeiting. En einhversstaðar var einhver værukærð. Það vantaði smá neista og baráttu og það er eitthvað sem hefur einkennt okkur í þessum alvöru leikjum bæði á stórmótum og í undankeppnunum.”

,,Það var ekki nægilega óþægilegt fyrir Þjóðverjana að spila á móti okkur og þeir stýrðu leiknum og spiluðu á sínum forsendum. Mér finnst menn hafa verið einbeittir  og ég er ánægður með margt í vikunni þó svo að þessi leikur hafi verið vonbrigði. Ég er að fá fullt af svörum,” sagði Snorri Steinn sem endur tók að hann skilji vangavelturnar en vonist til að mönnum líði ekki of þægilega með sín hlutverk.

Nýjustu fréttir

HAFA SAMBAND

Handkastið.net

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.

Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.


handkastid@handkastid.net

Scroll to Top