Markmiðið að spila vel og fara út eftir tímabilið
Valur)

Arnór Snær Óskarsson (Valur)

Arnór Snær Óskarsson var óvænt tilkynntur sem nýr leikmaður Vals á föstudaginn og er hann þar með snúinn heim úr atvinnumennsku og spilar með Val í Olís-deildinni það sem eftir er af tímabilinu. Hann gerði samning við Val út tímabilið og segist stefna aftur út næsta sumar.

,,Ég var að fá lítinn og jafnvel engan spiltíma í Noregi og langaði að fara annað og njóta þess að spila handbolta á nýjan leik," sagði Arnór Snær í samtali við Handkastið.

Arnór þekkir vel til á Hlíðarenda en hann fór frá uppeldisfélaginu í Val árið 2023 þegar hann fór til þýska stórliðsins Rhein Neckar Löwen. Þaðan fór hann á lán til Gummersbach og færði sig síðan til Kolstad í Noregi fyrir ári síðan. Þar hafa tækifærin verið af skornum skammti.

Arnór segist hafa haft úr einhverjum möguleikum að velja en ákvað að velja það að koma heim og í Val.

,,Ég hef verið í samtali við Val í einhvern tíma. Ég var búinn að segja við þá að ég ætlaði að vera áfram í Noregi og taka slaginn áfram með Kolstad og vinna mig aftur inn þar en svo bara á seinustu tveimur vikum fór þetta almennilega í gang," sagði Arnór sem er spenntur fyrir komandi tímum í Val.

,,Ég er mjög spenntur fyrir þessu. Það eru margir ungir góðir leikmenn í bland við reynslu meiri leikmenn. Þetta verður bara mjög skemmtilegt," sagði Arnór sem gæti leikið sinn fyrsta leik með Val á tímabilinu á fimmtudagskvöldið þegar liðið heimsækir Íslands- og bikarmeistara Fram í Úlfarsárdalinn.

,,Markmiðið er að spila vel hérna heima og fara aftur út eftir tímabilið," sagði Arnór að lokum.

Nýjustu fréttir

HAFA SAMBAND

Handkastið.net

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.

Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.


handkastid@handkastid.net

Scroll to Top