Jóhannes Björgvin (Sævar Jónasson)
Færeyingurinn í liði Stjörnunnar, Jóhannes Björgvin verður ekkert meira með Stjörnunni það sem eftir er af þessu ári. Þetta staðfesti Hrannar Guðmundsson þjálfari liðsins í samtali við Handkastið. Jóhannes Björgvin lék fyrstu þrjá leiki Stjörnunnar í Olís-deildinni en meiddist síðan illa á æfingu eins og Handkastið hafði áður greint frá. Meiðsli Jóhannesar voru hinsvegar töluvert alvarlegri en menn bjuggust við í fyrstu og er nú orðið ljóst að hann verður ekki meira með á þessu ári. ,,Þetta er aðeins alvarlegra en við bjuggumst við. Hann sleit liðband og tognaði á öðru liðbandi í ökkla auk þess að vera með beinbjúg hér og þar í ökklanum,” sagði Hrannar í samtali við Handkastið. Jóhannes Björgvin hafði byrjað tímabilið vel með Stjörnunni og skoraði níu mörk úr níu skotum í fyrstu þremur leikjum liðsins á tímabilinu. Stjarnan fer norður á Akureyri á föstudaginn og mætir þar KA í 9.umferð Olís-deildar karla.

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.