Einar Jónsson (Kristinn Steinn Traustason)
Einar Jónsson þjálfari Íslands- og bikarmeistara Fram var gestur Handkastsins á sunnudagskvöldið. Þar var hann spurður út í meiðslin hjá sínu liði og byrjunina á tímabilinu en Fram situr í 7.sæti deildarinnar með átta stig að loknum átta umferðum. ,,Ég held að það séu svona 2-3 vikur í Dánjal og 4-5 vikur í Þorstein Gauta sem nefbrotnaði. Aðrir eru bara flottir. Rúnar Kára er bara eins og í fyrra. Við erum að reyna passa álagið á honum.” Athygli hefur vakið að Ívar Logi Styrmisson hefur verið að spila sem leikstjórnandi í síðustu leikjum Fram í fjarveru Marels, Þorsteins og Dánjals. ,,Ívar Logi fer vonandi aftur í hornið þegar allir aðrir eru komnir til baka úr meiðslunum. Við fengum Dánjal frekar seint inn og Þorsteinn Gauti kemur þegar 2-3 umferðir eru búnar af mótinu. Viktor er að koma inn núna. Eðlilega höfum við ekki náð að púsla þessu almennilega saman en mér finnst þetta hafa gengið fínt. Evrópuleikirnir hafa að mestu leiti verið flottir. Það er helst leikurinn gegn Selfossi sem ég er óánægðastur með, annars er ég bara frekar sáttur,” sagði Einar en Fram mætir Val í 9.umferð Olís-deildarinnar á fimmtudagskvöldið í Úlfarsárdalnum klukkan 19:30.

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.