Bjarni Ófeigur Valdimarsson (Egill Bjarni Friðjónsson)
KA tók á móti Stjörnunni á Akureyri í kvöld. Leiknum lauk með sannfærandi sigri KA, lokatölur 36-31. Jafnræði var milli liðanna framan af í fyrri hálfleik áður en KA náði yfirburðum og fór í hálfleik með sjö marka forskot. Stjarnan náði ekki striki í síðari hálfleik og jókst forskotið enn meira, KA náði mest 12 marka forystu og var sigur KA svo gott sem tryggður um miðbik síðari hálfleiks. Stjarnan náði að klóra í bakkann síðasta korterið og minnka markamuninn niður í fimm mörk fyrir leikslok. Bjarni Ófeigur Valdimarsson og Morten Lind áttu báðir góðan leik fyrir KA. Bjarni Ófeigur var með 10 mörk úr 12 skotum og Morten Lind var með 8 mörk úr 9 skotum. Munur var milli liðanna á færanýtingu, KA var með 70,6% skotnýtingu meðan Stjarnan var með 53,4% skotnýtingu. Sá munur speglast í markvörslu hjá liðunum. Hjá KA var Bruno Bernat með 15 varða bolta eða 36,6% markvörslu, hjá Stjörnunni voru Adam Thorstensen og Sigurður Dan Óskarsson með samtals 11 varða bolta eða 23,4% markvörslu. KA er komið með 12 stig eftir þennan sigur og sitja í þriðja sæti deildarinnar, jafnir á stigum við Val. Stjarnan situr í níunda sæti með 7 stig. Hress styður umfjöllun Handkastsins um Þjóðaríþróttina - Í tilefni þess fá allir hlustendur og lesendur Handkastsins 2 fyrir 1 af öllum boozt á Hressbarnum út október. Hress er staðsett á Dalshrauni 11 í Hafnarfirði. Verði ykkur að góðu.

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.