Viktor Sigurðsson (Sævar Jónasson)
Það vakti athygli þegar Einar Jónsson þjálfari Fram tilkynnti Handkastinu í síðustu viku að nýjasti leikmaður Fram sem félagið keypti af Val í síðasta mánuði, Viktor Sigurðsson mætti ekki spila gegn sínu gamla félagi í 9.umferð Olís-deildarinnar í síðustu viku. Rætt var um málið í Handboltahöllinni í Sjónvarpi Símans á mánudagskvöldið þar sem þau undruðust á þessu máli. Handkastið sló á þráðinn til Róberts Geirs Gíslasonar framkvæmdastjóra HSÍ og spurði hann út í þetta svokallaða heiðursmannasamkomulag sem Valur og Fram gerðu í þessu máli. ,,Það er ekkert í regluverki HSÍ sem hefði bannað leikmanninum að spila þennan leik. Þetta er heiðursmannasamkomulag milli félaganna og HSÍ hefur enga aðkomu að því,” sagði Róbert Geir í samtali við Handkastið og bætti við. ,,Ef Viktor Sigurðsson í þessu tilfelli hefði spilað hefði leikurinn verið 100% löglegur og ekkert sem HSÍ hefði getað gert í því. Enda leikmaðurinn löglegur Fram,” bætti Róbert við. Valur vann leikinn með níu marka mun, 27-36 en leikurinn fór fram á heimavelli Fram. Umræðuna í Handboltahöllinni um þetta mál má sjá hér:

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.