Adam Thorstensen (Egill Bjarni Friðjónsson)
Það voru sannkölluð gleðitíðindi fyrir Stjörnumenn síðasta fimmtudag þegar Adam Thorstensen mætti aftur á parketið í marki Stjörnumanna eftir langvarandi höfuðmeiðsli. Adam lék sinn fyrsta leik í Olís-deildinni í tapi liðsins gegn KA í 9.umferð. Adam hafði einungis leikið tvo Evrópuleiki gegn Baia Mare í upphafi tímabils. Handkastið tók stöðuna á Adam og kannað hvernig batafarlið væri búið að vera. ,,Bataferlið gekk ekki vel til að byrja með ég var alls ekki ég sjálfur og birtust afleiðingarnar á fjölbreyttan hátt. Stundum erfitt með samskipti og upplifði mikla heilaþoku, en síðan kom þetta smátt og smátt og með hjálp Jóhönnu og annara fagaðila byrjaði þetta svo að rúlla." Adam viðurkennir að þetta hafi tekið lengri tíma en hann hafi búist við en þar sem þetta var ekki fyrsta höfuðhöggið hans á ferlinum þá var ákveðið að taka enga séns og sýndi hann því fullan skilning. Hann segir að honum hafi liðið vel í leiknum gegn KA og gott að komast aftur á völlinn. ,,Það var gaman að komast aftur á gólfið og fara spila aftur með strákanum svo var það líka fín tilbreyting frá því að sitja í stúkunni." Adam viðurkennir að hann sé aðeins meira var við sig í markinu varðandi fleiri höfuðhögg. ,,Ég er allavegna meira var við mig en ég var áður, ég finn það. Það fer svo vonandi hægt og rólega með æfingum og leikjum." Gera má ráð fyrir því að Adam verði í leikmannahópi Stjörnunnar í kvöld þegar liðið fær uppeldisfélag Adams, ÍR í heimsókn í Hekluhöllina. Leikur Stjörnunnar og ÍR hefst klukkan 19:30.

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.