Framarar fengu skell í Sviss í kvöld (Kristinn Steinn Traustason)
Framarar fóru í heimsókn til HC Kriens Luzern í Sviss í þriðju umferð Evrópudeildarinnar í kvöld. Ljóst var fyrir leik að á brattan yrði að sækja fyrir Fram en liðið steinlá 40-25 eftir að hafa verið 23-11 undir í hálfleik. Kjartan Þór Júlíusson var markahæstur í liði Fram með 7 mörk, Rúnar Kárason, Theodór Sigurðsson og Dagur Fannar Möller skoruðu 3 mörk hver, Max Emil Stenlund, Eiður Rafn Valsson, Erlendur Guðmundsson og Ívar Logi Styrmisson skoruðu 2 mörk hver og Viktor Sigurðsson skoraði 1 mark. Arnór Máni Daðason varði 9 bolta í marki Fram eða rétt rúmlega 23% hlutfalls markvörslu. Framarar hafa nú mætt öllum liðunum í riðlinum einu sinni og eiga því einn leik við hvert lið eftir í riðlakeppninni. Fram hefur tapað öllum þremur leikjunum í keppninni til þessa. Ljóst er að mikið þarf til ef liðið ætlar sér að sækja úrslit í riðlinum en af leikjunum þremur að dæma verður það erfitt verkefni fyrir Framara.

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.