Arnór Snær Óskarsson (Valur)
Arnór Snær Óskarsson gekk fyrr í þessum mánuði í raðir Vals eftir rúmlega tveggja ára veru í atvinnumennsku þar sem hann lék með Gummersbach og Rhein-Neckar Lowen í Þýskalandi og Kolstad í Noregi. Segja mætti að Arnór Snær hafi mætt af krafti inn í lið Vals sem hefur unnið alla þrjá leikina eftir að hann kom inn í liðið með töluverðum yfirburðum. Áður en Arnór Snær kom til Vals hafði liðið einungis náð að tengja saman tvo sigurleiki í Olís-deildinni og þá féll liðið úr leik í Powerade-bikarnum eftir vítakastkeppni gegn Haukum í 16-liða úrslitum. Valur hefur unnið þá þrjá leiki sem liðið hefur leikið eftir að Arnór Snær kom til félagsins samtals með 26 mörkum. Fyrsta leikinn vann Valur með níu mörkum er liðið heimsótti Fram í Úlfarsárdalinn. Næst unnu þeir HK einnig á útivelli með níu mörkum og loks um helgina vann liðið ÍBV á heimavelli með átta mörkum 34-26. Það er því óhætt að segja að Arnór Snær hafi komið með jákvæða strauma inn í lið Vals sem fær Stjörnuna í heimsókn í 12.umferð Olís-deildar karla á fimmtudagskvöldið klukkan 18:30. Valur vann fyrri leik liðanna í Garðabænum með fimm mörkum, 27-32 og það verður fróðlegt að sjá hvort ótrúegir yfirburðir Vals í Olís-deildinni halda áfram á fimmtudaginn. Valur er í 2.sæti Olís-deildarinnar tveimur stigum á eftir Haukum sem eru á toppi deildarinnar með 18 stig þegar deildin er hálfnuð.

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.