Adam Thorstensen (Sævar Jónasson)
Stjarnan vann afar sannfærandi útisigur á Íslands- og bikarmeisturum Fram í 11.umferð Olís-deildar karla í síðustu viku 24-33 eftir að hafa verið mest þrettán mörkum yfir í seinni hálfleik. Þetta var fyrsti sigur Stjörnunnar í fimm síðustu leikjum liðsins. Handboltahöllin fór yfir sigur Stjörnunnar í Sjónvarpi Símans á mánudagskvöldið þar sem Stjörnuliðinu var hrósað fyrir öflugan leik þar sem margir leikmenn komu með eitthvað að borðinu. ,,Stjörnumenn sýndu trúlega sinn besta leik á tímabilinu gegn Íslands- og bikarmeisturum Fram. Það var ekki bara í vörninni eða sókninni. Það var allur leikur liðsins sem var heilsteyptur og varnarleikurinn gefur tóninn,” sagði Hörður Magnússon þáttastjórnandi Handboltahallarinnar áður en Rakel Dögg Bragadóttir tók við. ,,Þeir voru ótrúlega flottir og mættu með miklu meira spirit í þennan leik en það sem maður hefur séð þá í leikjunum. Þeir spiluðu mjög góða og sterka vörn og voru að koma Frömurunum í mjög erfiða stöðu. Þeir voru að koma þeim í gildrur þar sem Framarar voru að missa boltann. Síðan voru Stjörnumenn að keyra vel upp völlinn. Það var einhver allt annar andi yfir liðinu,” sagði Rakel Dögg meðal annars og benti á að Stjarnan hafi skorað 21 mark í fyrri hálfleik. Tíu leikmenn Stjörnunnar skoruðu í fyrri hálfleik, ,,sem er merki um góða liðsheild. Þetta var liðssigur hjá þeim”, bætti Rakel Dögg við. Stjarnan heimsækir Val í 12.umferð Olís-deildarinnar annað kvöld klukkan 18:30 í fyrta leik umferðarinnar.

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.