Ágúst Jóhannsson (Sævar Jónasson)
Rætt var um gengi Valsliðsins að undanförnu í nýjasta þætti Handkastsins en Valur vann Stjörnuna á heimavelli með sjö mörkum í 12.umferð Olís-deildar karla á fimmtudagskvöldið. Með sigrinum jafnaði Valur, Hauka að stigum á toppi deildarinnar en á sama tíma tapaði Haukar gegn Aftureldingu í Mosfellsbænum. Stymmi klippari spurði Haukamanninn, Benedikt Grétarsson að því í Handkastinu hvort hann sjái eitthvað lið eiga séns í Val á tímabilinu. ,,Miðað við úrslitin á fimmtudagskvöldið, ég hef nú alveg talað Haukana upp en það er ekki mikið tilefni til þess eftir úrslitin í Mosfellsbænum. Sérðu eitthvað lið stöðva þessa Valshraðlest?,” spurði Stymmi klippari, Benedikt. ,,Ég get ekki setið hér í nóvember og talað um eitthvað sem gæti gerst í maí en sögusagnirnar eru réttar að þeir séu að fá Hákon Daða í vinstra hornið. Þá er þetta orðið eins og Einar Jónsson þjálfari Fram sagði einhverntímann, þá er þetta orðið leiðinlegt, ég nenni þessu ekki, í alvöru talað,” sagði Benni Grétars og bætti við: ,,Valsmenn eru með besta liðið, það er bara þannig. Ef allir haldast heilir og síðan fá þeir Róbert Aron inn og ef Hákon Daði kemur, þá í fljótu bragði sér maður ekkert lið keppast við þá. En íþróttin er brellin og brögðótt og það hafa betri lið en Valur misstigið stig á lokakaflanum.” Valur fer í heimsókn í Kaplakrikann í næstu umferð og mæta þar FH en liðið hefur unnið fjóra leiki í röð í Olís-deildinni og alla nokkuð sannfærandi.

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.