Dánjal Ragnarsson (Sævar Jónasson)
Fram tapaði lokaleik sínum í riðlakeppni Evrópudeildarinnar gegn norsku deildarmeisturunum í Elverum í Noregi í kvöld með fjórtán mörkum, 38-24 eftir að hafa verið 23-11 undir í hálfleik. Það stóð ekki steinn yfir steini í leik Fram frá fyrstu mínútu og komst Elverum snemma leiks í stöðuna 7-2 og jók forystuna hægt og bítandi allan fyrri hálfleikinn, en liðið náði fyrst þrettán marka foyrstu í stöðunni 22-9. Afhroð Framara hélt áfram í seinni hálfleik þar sem Elverum komst mest átján mörkum yfir í stöðunni 30-12 og segja mætti að Íslands- og bikarmeistarar Fram hafi verið flengdir af leikmönnum Elverum í kvöld. Framarar náðu að saxa örlítið á forystuna og endaði leikurinn eins og fyrr segir 38-24. Max Emil Stenlund var markahæstur í liði Fram í kvöld með átta mörk, Viktor Sigurðsson skoraði sex og Dánjal Ragnarsson skoraði þrjú mörk. Breki Hrafn Árnason varði átta skot í markinu en Arnór Máni Daðason varði ekki eitt skot af þeim ellefu sem hann fékk á sig. Framarar geta varla gengið stoltir frá borði eftir frammistöðuna sína og árangur í Evrópudeildinni í vetur. Liðið fékk flest mörk á sig allra í riðlakeppninni. Fram endar riðlakeppnina með -65 í markatölu úr þessum sex leikjum sem þýðir að liðið hafi tapað þessum sex leikjum með rúmlega 10 markamun. Framarar geta nú einbeitt sér að Olís-deildinni þar sem liðið er í 8.sæti deildarinnar en liðið fer norður á Akureyri og mætir þar Þór í 13.umferð deildarinnar næstkomandi laugardag.

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.