Einar Sverrisson (Kristinn Steinn Traustason)
,,Eins og er þá er ég hættur,” sagði Selfyssingurinn, Einar Sverrisson sem lék með FH hluta af síðasta tímabili eftir að hafa sagt skilið við sitt uppeldisfélag, Selfoss eftir að liðið féll úr Olís-deildinni tímabilið 2023/2024. Með FH varð Einar deildarmeistari á síðustu leiktíð en FH féll úr leik í undanúrslitum gegn Íslandsmeisturunum í Fram, 3-1. ,,Það blundar alltaf í mér að ég hefði viljað klára ferilinn í vínrauðum lit þó svo að það kalli ekki á mig að fara á fullu aftur í gang núna,” sagði Einar en Selfoss er komið aftur í deild þeirra bestu og er í harðari botnbaráttu en á sama tíma er stutt upp í úrslitakeppnis sæti hjá liðinu. ,,Auðvitað langar manni að enda ferilinn með Selfossi. Ég er bæði leikja- og markahæsti leikmaður félagsins frá upphafi,” sagði Einar sem gerir hinsvegar ekki ráð fyrir að það fari svo að hann taki fram skóna og leiki með Selfossi á nýjan leik þó svo að það væri falleg tilhugsun að enda ferilinn með uppeldisfélaginu. Selfoss er í 9.sæti Olís-deildarinnar með níu stig eftir 13 umferðir en liðið vann lífsnauðsynlegan sigur gegn ÍR á heimavelli í síðustu umferð.

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.