Dean Bombac (Laurent Sanson - AFP)
Botnlið þýsku úrvalsdeildarinnar Leipzig er að gera allt sem það getur til að breyta gengi liðsins. Á dögunum urðu þjálfaraskipti á liðinu er Raul Alonso var sagt upp störfum og Frank Carstens tók við liðinu. Liðið tapaði naumlega um helgina gegn Stuttgart, 33-32 en liðið er enn í leit af sínum fyrsta sigri á tímabilinu eftir fimmtán umferðir. Rúnar Sigtryggsson var þjálfari liðsins á síðustu leiktíð en var sagt upp störfum eftir tímabilið. Blær Hinriksson gekk í raðir félagsins frá Aftureldingu í sumar. Nú hefur félagið leitað til Dean Bombac um að ganga í raðir félagsins en það sást til leikmannsins á flugvelli í Evrópu fyrr í dag á leið til Þýskalands. Þýskir fjölmiðlar hafa greint frá komu hans til Leipzig. Dean Bombac lék með ungverska félaginu Győri ETO FKC en rifti samningi sínum við félagið í síðasta mánuði. Nú hefur hann fundið sér nýtt félag. Bombac á að baki rúmlega 120 landsleiki fyrir Slóveníu og lék lengi með félögum á borð við Kielce og Pick Szeged. Hann hefur aldrei áður leikið í Þýskalandi en hann verður 37 ára í apríl á næsta ári.

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.